Einkenni almennar kvíðaröskunar GAD

Það er eðlilegt að finna fyrir kvíða af og til.  Þeir sem greinast með kvíðaröskun eru oftar kvíðnir og hafa áhyggjur af hlutum sem fólk almennt hefur ekki áhyggjur af.

Almenn kvíðaröskun (GAD, generalized anxiety disorder) er geðröskun sem einkennist af miklum og viðvarandi áhyggjum af smávægilegum hlutum sem erfitt er að hafa stjórn á.  Áhyggjurnar eru af ýmsum þáttum lífsins eins og vinnu, maka, börnum eða fjármálum.  Venjulega eru þær af fleiru en einu. Styrkleiki og tíðni þeirra er gjarnan úr samhengi við hve líklegt er að áhyggjuefnið verði að veruleika.

Þeir sem eru með almenna kvíðaröskun virðast eiga erfiðara með að hafa stjórn á áhyggjum sínum en aðrir.  Margir hafa verið kvíðnir alla tíð.  Einkenni eru viðvarandi en sveiflukennd og hafa tilhneigingu til að versna á álagstímum.  Einstaklingurinn er stöðugt kvíðinn og reiknar frekar með að hið versta geti gerst.  Mikilvægt er að vita að allt og allir séu í lagi.

Athyglin beinist frekar að kvíðavekjandi þáttum sem getur valdið því að jákvæðu þættir lífsins falla í skuggann.  Einstaklingurinn gæti jafnvel talið sig bera ábyrgð á einhverju sem er ekki á hans valdi.(Nolen-Hoeksema, 2007).

Almenn kvíðaröskun dregur úr lífsgæðum fólks og hefur hamlandi áhrif á ýmsa þætti lífsins eins og atvinnu, nám, sambönd, fjölskyldulíf og fleira eins og allar kvíðaraskanir gera.  Fólk leggur jafnvel mikið á sig til þess að forðast það sem það óttast.

Einkenni almennar kvíðaröskunar GAD:

  1. Eirðarleysi
  2. Þreyta
  3. Einbeitingarskortur
  4. Pirringur
  5. Vöðvaspenna
  6. Svefnvandamál

Einkennin þurfa að hafi verið til staðar óháð þunglyndi (depressive psychopathology) í að minnsta kosti sex mánuði (APA, 1994). 

Um það bil 90% þeirra sem greinast með GAD hafa verið kvíðnir svo lengi sem þeir muna eftir sér.  Þeir uppfylla einnig greiningarviðmið fyrir að minnsta kosti eina aðra röskun.  Sum einkenna GAD eru einnig einkenni annarra geðraskana eins og þunglyndi, felmturröskun og víðáttufælni.  Meðallengd sjúkdómsins er um það bil 20 ár og eru konur tvisvar sinnum líklegri en karlar til að fá sjúkdóminn.  Lífstíðaralgengi er  4-7%.

Samsláttur GAD við aðrar geðraskanir er mikill og hafa rannsóknir sýnt að 60-90% uppfylla einnig greiningarviðmið fyrir aðra geðröskun (Nolen-Hoeksema, 2007).  Áhyggjuhegðun gæti verið til staðar en hún felst í því að reyna að hafa stjórn á því sem áhyggjunum tengist t.d. með því að skrá öll verkefni nákvæmlega niður, hringja í börnin sín eða maka og athuga hvort allir séu hultir.  Áhyggjur eru megin einkenni kvíðans.  Þær eru meðal annars leið til að fást við vanda því þær undirbúa einstaklinginn í að mæta ógn og draga úr hinu óvænta.  Hegðunin dregur úr kvíðanum en viðheldur honum á sama tíma þar sem einstaklingurinn fær ekki tækifæri til þess að komast að því að oftast eru áhyggjurnar óþarfar (Borkovec, 2002).

Heimildir:

American Psychiatric Association (APA). (1994). Diagnostic and statistical manual og mental disorders (4. útgáfa). Washington, DC: American Psychiatric Press.

Borkovec, T. (2002). Life in the future versus life in the present. Clinical Psychology: Science and practice, 9, 76-80.

Nolen-Hoeksema, S. (2007). Abnormal psychology (4. útgáfa). New York: McGraw Hill.

 

Share
This entry was posted in Kvíði and tagged , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published.