Heilinn þinn er að mótast og breytast allt lífið!

MRI (Magnetic Resonance Imaging) eða segulómun hefur verið notuð til þess að mæla þykkt heilabarkar.  Rannsóknir á heilaberki hafa leitt í ljós að ýmsir sjúkdómar, aldur og endurtekin hegðun hafa áhrif á þykkt hans.  Komið hefur í ljós að staðbundin svæði verða fyrir breytingum, þykknun eða þynning, en þynning á sér einnig stað yfir allan heilabörkinn.

Við lifum á spennandi tímum þar sem áhugi og geta til að rannsaka heilann er stöðugt að aukast.  Þegar einni spurningu er svarað vakna margar nýjar.  Eru það sömu svæðin sem þynnast í sjúkdómum og í hrörnun vegna aldurs?  Væri hægt að nýta  niðurstöður rannsókna til þess að bæta lífsgæði mannsins?  Er mögulegt að hægja á öldrunarferli heilabarkar?

Bruce Fischl og Anders M. Dale hönnuðu aðferð til þess að mæla þykkt heilabarkar af meiri nákvæmni en áður hefur þekkst og birtist grein um það í PNAS árið 2000.  Með aðferð þeirra er þykkt heilabarkarins mæld með því að gera nákvæmt módel af gráa/hvíta og pial yfirborðinu og mæla bilið á milli þeirra svæða.  Siðan er unnið með þær niðurstöður með tölfræðilegum aðferðum.  Aðferðin var prófuð og endurprófuð með innanhópasniði (within subject test-restest studies).  Flestar rannsóknir sem vitnað er í þessari grein notuðu aðferð þeirra við mælingar á þykkt heilabarkar, ef svo var ekki þá mun það verða tekið sérstaklega fram.

Heilabörkurinn samanstendur af taugafrumum og liggur hann í fellingum. Meðalþykkt hans er um það bil 2,5 mm.  Þykkustu svæðin eru 4,5 mm og þynnstu eru um 1 mm.  Allt vitsmunastarf mannsins á sér meðal annars stað þar.  Mikil samskipti eiga sér stað á milli dreka (hippocampus) og heilabarkar.  Drekinn tekur á móti upplýsingum sem berast heilanum í gegnum skynjun og tengir þær fyrri upplifun. Ferlið heldur síðan áfram til frekar varðveislu í heilaberki.  Framheilabörkur (anterior cortex), gagnaugabörkur (temporal cortex) og framennisbörkur (prefrontal cortex), eru meðal þykkustu svæða heilabarkar, en skynjunarsvæðin (sensory areas) eru þynnst.

Einn þeirra sjúkdóma þar sem þynning á heilaberki er einnig til staðar er heila og mænusigg (Multiple Sclerosis, MS).  Svæði framheilabarkar og gagnaugabarkar sýndu þynningu jafnvel snemma í sjúkdómsferli en eftir því sem sjúkdómurinn hafði staðið lengur þá kom einnig fram þynning á hreyfiberki.  En MS er ekki eini sjúkdómurinn þar sem tengsl hafa fundist við þynningu á heilaberki má þá einnig nefna Huntington, geðklofa og Alzheimer.

Alzheimer er hrörnunarsjúkdómur þar sem skemmdir koma fyrst fram í dreka. Getan til þess að vista nýjar upplýsingar og bæta þeim í langtímaminni skerðist.  Starfsemi taugafruma sem tengjast því ferli minnkar.  Eftir því sem sjúkdómurinn ágerist eykst þynning heilabarkar sérstaklega í gagnaugageira og hvirfilgeira.  Það hefur verið mælt með segulómun.

Eðlileg hrörnun heilans tengist hins vegar hækkandi aldri.  Þynning heilabarkar er sýnileg á miðjum aldri.  Í rannsókn sem David H. Salat og fleiri gerðu voru fyrri rannsóknir um hrörnun heilabarkar staðfestar, til dæmis að rýrnun yrði á framennisberki en síður á gagnaugaberki.  Aðrar niðurstöður komu á óvart til dæmis rýrnun á framheilaberki nálægt hreyfiberki (primary motor cortex) og calcarine cortex sem er nálægt sjónberki (visual cortex).  Þetta sýnir að rýrnun heilabarkar er dreifð og nær einnig til tengslasvæðanna (association cortex).

Aukning á þynningu heilabarkar fylgir ákveðnu munstri sem tengist skynberki og hreyfiberki.  Samkvæmt rannsókninni virðist þynning á heilaberki vera byrjuð fyrir 31. aldursárið.  Með hækkandi aldri þynnist heilabörkurinn meir og meir.  Þau svæði þar sem marktæk þynning fannst voru skynbörkur, (primary sensory (occipitallobe/calcarine)), líkams-skynbörkur (primary somatosensory of motor (pre/post central gyrus og central sulcus)), tengslabörkur (association cortices (inferior lateral prefrontal cortex)), með mestu marktækni í framennisberki.  Þetta heilasvæði hefur fengið nokkra athygli í tengslum við vitsmunalega öldrun, en almennt er geta fullorðinna til þess að leysa flóknar þrautir lakari en geta yngra fólks.

Áhugaverð rannsókn sem Sara W Lazar og fleiri gerðu á áhrifum hugleiðslu á heilabörk vekja upp spurningar hvort hægt sé með ákveðnum iðkunum eða lífsstíl að tefja öldrunarferli heilans og lengja þannig lífsgæðatíma mannsins sem vitsmunaveru eða jafnvel að hægja á hnignunarferli heilabarkar í sumum sjúkdómum.  Niðurstöður rannsókna þeirra leiddu í ljós að svæði heilans sem tengjast athygli, einbeitingu og skynjun (sensory processing) eru þykkri hjá þeim sem hugleiða að staðaldri, sérstaklega þó framennisbörkur.  Hugleiðslan felst í því að einbeita sér að hlutlausri innri og ytri skynjun án þess að vitsmunaleg hugsun um áreitin eigi sér stað.  Meðallengd hugleiðslunnar var 40 mínútur á dag, þátttakendur lifðu að öðru leyti eðlilegu lífi.  Þykknun mældist á heyrnarberki, líkamsskynberki, sjónberki og framennisberki, sem sýndi mesta þykknun. Einnig kom í ljós að meðalþykkt heilabarkar 40 til 50 ára þátttakenda sem stundað höfðu hugleiðslu var lík meðalþykkt 20 til 30 ára þátttakenda sem ekki stunduðu hugleiðslu.  Ekki var teljanlegur munur á þeim sem hugleiddu miðað við aldur þeirra, það er að segja þeir sem eldri voru höfðu svipað þykkan heilabörk og þeir sem yngri voru.  Af þess var sú ályktun dregin að þjálfunarháð hegðun geti breytt heilaberkinum.

Fleiri rannsóknir hafa sýnt fram á að svo geti verið. Leigubílstjórar í London hafa stærri dreka en aðrir og ástæðan er talin vera æfingin sem þeir öðlast við að rata um og aka í borginni.  Maðurinn eða réttara sagt heili mannsins aðlagar sig að umhverfinu sem hann lifir í og þeim aðstæðum sem þar eru.

Ýmsir möguleikar opnast með því að rannsaka meira hvað er að gerast í heila einstaklingsins við mismunandi hegðun hans og aðstæður til dæmis; heilbrigði, sjúkdóma, starfssvið, áhugamál og lífsstíls.  Eftir því sem mælingar verða nákvæmari og tíminn sem það tekur að vinna úr myndunum styttri þá aukast tækifæri fyrir fleiri rannsóknaraðila að nota þessa tækni.  Samskipti taugafruma vegna hegðunar lífverunnar eða hegðun lífverunnar vegna samskipta taugafrumanna eru stöðugt að móta heilabörkinn.

Eins og komið hefur fram þá er framennisbörkur greinilega svæði sem er viðkvæmt fyrir þynningu í tengslum við öldrun, Alzheimer og MS.  En það er líka næmt fyrir breytingum í hina áttina, þegar ákveðin hegðun er endurtekin, til dæmis hugleitt á ákveðinn hátt, sama lagið spilað endurtekið á píanó, sömu leiðir keyrðar og fleiri svipuð hegðun.  Þegar heilabörkur rýrnar þá skerðast möguleikar lífverunnar til hegðunar, til dæmis hreyfigetu, vitsmunastarfs, skynjunar og fleira.  Að viðhalda eða auka þykkt heilabarkar er einn af þeim þáttum sem viðheldur líklega hæfni einstaklingsins eða jafnvel eykur hana.  Sérhæfð hegðun eins og að vera leigubílstjóri í London breytir stærð drekans.  Gæti það verið að þeir sem hafa stóran dreka sækist frekar eftir því að verða leigubílstjórar í London en aðrir? Laðast fólk með þykkri heilabörk á ákveðnum svæðum, til dæmis í framennisberki frekar að hugleiðslu en aðrir? Slíkar tilviljanir geta verið þáttur í niðurstöðum áður nefndra rannsókna, en líklegra er að hegðunin móti heilabörkinn.  Þegar sama hegðun er endurtekin eiga sér stað örari samskipti taugafruma.  Samskipti taugafruma hafa áhrif á heilabörkinn.

Þær rannsóknir sem hér hefur verið vísað íeru frá 2006 og fyrr.  Síðan hafa margar nýjar rannsóknir bæst við sem meðal annars styðja jákvæðar breytingar á heilaberki (gráa svæði heilans) við iðkun árvekni hugleiðslu (MBSR, Mindfulness Based Stress Reduction) en einnig hvíta svæði heilans sem hefur með samskipti á milli heilasvæða að gera.  Ef niðurstöður áður nefndra rannsókna eiga eftir að fá frekari stuðning þá gæti það leitt til þess að hægt verði að hægja á öldrunarferli heilabarkar til dæmis með hugleiðslum, þar sem eitthvað eitt er ráðandi eins og að einbeita sér að öndun. Þannig mætti auka lífsgæði einstaklingsins um einhvern tíma, lengja vitsmunalegt líf og starfsgetu hans, jafnvel þess sem starfað hefur við að leysa flókin verkefni. Ef til vill væri hægt að nýta hugleiðslur sem hluta meðferðar sjúklinga sem greinast snemma með MS og Alzheimer.  Frekari rannsóknir á þessu sviði eru því óneitanlega áhugaverðar.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Share
This entry was posted in Árvekni/Mindfulness, Heilinn, Pistlar um árvekni and tagged , , , , , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published.