Ofsakvíði/felmturröskun (panic disorder) einkenni

Felmtursröskun eða ofsakvíði er kvíðaröskun sem einkennist af endurteknum kvíðaköstum.  Við lífshættulegar aðstæður  eins og flugslys verður fólk réttilega ofsahrætt en sumir fá hræðslukast að ástæðulausu.  Þetta fer meðal annars eftir persónuleika og næmni fyrir ótta.

Fyrsta kastið kemur oft þegar einstaklingurinn er haldinn mikilli streitu.  Hún leiðir til kvíðaeinkenna sem geta orðið kveikjan að ofsakvíðakastinu.  Þeir sem fá ofsakvíða þróa oft með sér væntinga eða og aðstæðnakvíða.  Væntingakvíði eru áhyggjur af því að fá annað ofsakvíðakast.  Aðstæðnakvíði tengist þeim stað eða aðstæðum sem voru til staðar þegar síðasta kast átti sér stað.  Einstaklingurinn hefur þá oft tilhneigingu til að forðast aðstæðurnar eða staðinn.

Oföndun fylgir ofsakvíðaköstum og getur hún bæði komið á undan og á eftir þeim.  Hún getur leitt til spennu og vöðvabólgu í brjóstkassa sem einstaklingarnir túlka sem hjartaverki.   Kvíðakast veldur gjarnan frekari kvíða fyrir næsta kasti.  Það getur haft mikil áhrif á lífsgæðin þar sem lífið er undirlagt af ótta og kvíða fyrir næsta kasti.

Sumir forðast þær aðstæður sem ofsakvíðakastið varð í og verða fælnir t.d. ef kastið varð í strætó þá myndi viðkomandi forðast að fara með vagninum og ganga í staðinn.  Það myndi þýða að allar ferðir tækju mun lengri tíma en áður.  Fælni í kjölfar ofsakvíðakasta getur því virkað mjög hamlandi á líf fólks.

Ofsakvíði er óþægileg röskun, bæði fyrir einstaklinginn og aðstandendur hans.  Talið er að um 2% mannkyns þjáist af honum einhvern tíma á lífsleiðinni en á hverjum tíma í kringum 1%.  Ofsakvíði er talinn tvöfalt til þrefalt algengari meðal kvenna en karla.  Algengast er að einkenna sjúkdómsins verði fyrst vart á aldrinum 18-35 ára en þau geta byrjað á hvaða aldri sem er.  Röskunin er þó fátíð meðal aldraðra.  Samkvæmt Ameríska greiningarkerfinu DSM einkennist ofsakvíðaröskun (Panic disorder) af endurteknum kvíðaköstum þar sem að minnsta kost 4 af eftirtöldum einkennum koma fram:

·         Aukinn hjartsláttur

·         Óhóflegur sviti

·         Skjálfti

·         Köfnunartilfinning

·         Verkur fyrir brjósti

·         Ógleði

·         Svimi og yfirliðstilfinning

·         Óraunveruleikatilfinning

·         Finnast maður vera að missa tökin

Endurtekin köst sem ná hámarki á 10 mínútum og leiða til þess að einstaklingurinn hefur áhyggjur í að minnsta kosti mánuð að fá annað kast.

Heimildir:

American Psychiatric Association (APA). (1994). Diagnostic and statistical manual og mental disorders (4. útgáfa). Washington, DC: American Psychiatric Press.

Fauman, M. A. (2002). Study guide to DSM-IV-TR. Arlington: American Psychiatric Publishing, Inc.

Nolen-Hoeksema, S. (2007). Abnormal psychology (4. útgáfa). New York: McGraw Hill.

Share
This entry was posted in Kvíði and tagged , , , , , , , , . Bookmark the permalink.

Leave a Reply

Your email address will not be published.