Einkenni félagskvíðaröskunar/félagsfælni

 

Örpistill 2 um félagskvíðaröskun.

Eftirfarandi er samantekt af einkennum félagskvíðaröskunar/félagsfælni samkvæmt DSM (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) og ICD-10 (International Classification of Diseases 10th Revision).

Viðvarandi ótti við eina eða fleiri félagslegar aðstæður til dæmis þar sem einstaklingurinn hittir ókunnuga, hugsanlegt mat eða dómar annarra (framkomu,klæðnað o.þ.h.) eða við aðstæður þar sem hann telur líkur á að hann geti orðið sér til minnkunar eða skammar.  Einstaklingurinn óttast að hann muni hegða sér á vandræðalegan eða niðurlægjandi hátt.

Gróflega má flokka þessar félagslegu aðstæður í þrennt: samskipti við fólk, áhorf og að koma fram t.d halda ræðu.  Dæmi um þetta gæti verið:

a) að hitta fólk (líka ókunnuga) hefja samtal, tala í hóp, tala við yfirmenn, láta í ljós skoðun sína,

b) að matast þegar einhver sér til, nota almenningssalerni, fara í vinnu, skóla, sund, líkamsrækt eða verlsanir, sjást á opinberum stöðum og koma fram opinberlega.

c) halda ræðu, vera með kynningu, halda fyrirlestur, vera veislustjóri, halda fundi ofl.

Félagslegar aðstæður sem viðkomandi óttast vekja nánast undantekningarlaust upp kvíða sem gæti jafnvel komið fram sem aðstæðubundinn kvíði eða ofsakvíðakast (panic).  Hann áttar sig á því að kvíðinn er óeðlilega mikill miðað við aðstæður eða jafnvel ástæðulaus.

Líkamleg einkenni eru lík og í öðrum kvíðaröskunum eins og handskjálfti, aukin svitamyndun, örari hjartsláttur, munnþurrkur og óþægindi í maga svo eitthvað sé nefnt.  Áhyggjur einstaklingsins snúast líka um að fólk taki eftir þessum líkamlegu einkennum eða að hann sé klaufalegur, segi einhverja vitleysu, stami, missi eða hnjóti um eitthvað o.s.frv.

Hugsanir snúast um framtíðina, einstaklingurinn er upptekinn af því sem hann óttast að muni gerast.  Hann fer að forðast þær aðstæður sem valda kvíðanum og forðunin, væntingarkvíðinn eða streitan í félagslegu aðstæðunum sem viðkomandi óttast hefur síðan truflandi áhrif á daglegt líf hans eins og nám, störf, félgaslegar athafnir og samskipti.  Eftir því sem árin líða og ekkert er að gert þá einangrast sumir meira og meira.

Næsti örpistill mun fjalla um algengi og fylgiraskanir

Ef þú hefur áhuga á að fylgjast með næstu örpistlum um félagskvíðaröskun þá geturðu skráð netfangið þitt í gluggann ofarlega til hægri á síðunni og ýtt á já takk hnappinn.  Þú munt fá póst sem þú þarft að bregðast við.  Næstu örpistlar munu síðan koma í póstinn til þín um leið og þeir birtast hér á skreffyrirskref.is

Helstu heimildir:

World Health Organisation, 2008

American Psychiatric Association, 2000

Share
This entry was posted in Félagskvíðaröskun, Kvíði and tagged , , , , , . Bookmark the permalink.