Þekkir þú einhvern sem er með félagskvíðaröskun/ félagsfælni

Þetta er fyrsti örpistillinn  um félagskvíðaröskun.  Það sem áður var kallað félagsfælni (Social Phobia) er í dag kallað félagskvíðaröskun (Social Anxiety Disorder).  Félagskvíðaröskun er fjórða algengasta geðröskunin á eftir alvarlegu þunglyndi, áfengis- og vímuefnaröskun og sértækri fælni.  Um það bil 12% fá röskunina einhvern tímann á ævinni.  Yfirleitt hefst hún á unglingsárunum en hún greinist einnig hjá börnum og fullorðnum.

Margir kannast við að hafa einhvern tímann á ævinni verið feimnir.  Feimni vekur kvíða hjá einstaklingnum og getur verið hamlandi eins og félagskvíðaröskun.  En vert er að fara varlega í að tala um feimni og félagskvíðaröskun sem sambærilegan vanda þó að einkenni séu ef til vill lík.  Sumir hafa tilhneigingu til að líta á félagskvíðaröskun sem feimni, gera lítið úr henni og bregðast því ekki við vandanum.  Félagskvíðaröskun er alvarlegur vandi sem þarf að bregðast við.  Röskuninn getur orðið varanleg ef hún er ekki meðhöndluð, en einungis 8 – 20% einstaklinga með röskunina leita sér hjálpar.

Einstaklingur með félagskvíðaröskun nýtur oft minni lífsgæða en aðrir, þar sem að röskunin hefur víðtæk áhrif á líf hans.  Hann getur fundið fyrir yfirþyrmandi kvíða þegar til stendur að kynnast nýjum einstakling eða fara á mannfagnað, jafnvel þó að um afmæli innan fjölskyldunnar sé að ræða.  Lakari lífsgæði geta komið einnig fram í námi, starfi og félagslífi en röskunin getur hæglega dregið úr frammstöðu og ánægju.

Félagskvíðinn verður oft til þess að einstaklingurinn forðast aðstæðurnar.  Hann hættir að taka virkan þátt í viðburðum, jafnvel innan fjölskyldunnar og í alverlegustu tilvikunum hættir hann að fara út og er bundinn við heimili sitt.  Röskunin getur einnig valdið því að einstaklingurinn velur sér starf sem samræmist ekki getu hans.  Forðunarhegðun eykst með tímanum.  Fyrst er þetta lausn þar sem kvíðinn hjaðnar við ákvörðunina að mæta ekki eða taka ekki þátt og vera frekar heima það er að segja forðast aðstæðurnar, en þegar til lengri tíma er litið þá eykst hömlunin og vandinn vex. Það verður því erfiðara og erfiðara að taka þátt í félagslegum athöfnum eftir því sem árin líða.

Ef þú hefur áhuga á að fylgjast með næstu örpistlum um félagskvíðaröskun þá geturðu skráð netfangið þitt í gluggann ofarlega til hægri á síðunni og ýtt á já takk hnappinn.  Þú munt fá póst sem þú þarft að bregðast við.  Næstu örpistlar munu síðan koma í póstinn til þín um leið og þeir birtast hér á skreffyrirskref.is

Helstu heimildir:

Kessler R.C., Berglund P., Demler O., Jin R., Merikangas K.R., Walters E.E. Lifetime
prevalence and age-of-onset distributions of DSM-IV disorders in the National
Comorbidity Survey Replication.  Archives of General Psychiatry. 2005, 62:593-
602.

Turk, C.L., Heimberg, R.G. og Magee, L. (2008).  Social anxiety disorder.  Í D. Barlow (ritstj.), Clinical handbook of psychological disorders: A step – by – step treatment manual (4. útgáfa).  NY: Guilford

 

Share
This entry was posted in Kvíði and tagged , , , , , . Bookmark the permalink.