Úrræði við félagskvíðaröskun

Eins og komið hefur fram í fyrri örpistlum þá fylgir mikil vanlíðan því að vera með félagskvíðaröskun.  Röskunin getur haft sértæk eða víðtæk áhrif á líf einstklingsins allt eftir því að hvaða sviðum lífsins hún beinist.  Sumir leita sér ekki hjálpar fyrr en eftir 20 ára þjáningu og enn aðrir leita sér aldrei hjálpar.

Félagskvíðaröskun hverfur yfirleitt ekki með aldrinum og ef vandinn er enn til staðar um tvítugt lagast hann líklegast ekki nema með inngripi.  Einstaklingur með félagskvíðaröskun er líka líklegur til að þróa með sér aðra eða aðrar raskanir ef ekki er gripið inn í, þar að auki eru miklar líkur á að röskunin verði meira hamlandi með árunum.   Lífsgæði einstaklings með röskunina geta því aukist umtalsvert ef gripið er inn í ferlið og því fyrr því betra.

Hugræn atferlismeðferð, HAM er flokkur meðferða.  Meðferðirnar eru breytilegar eftir vandanum sem þær beinsat að.  Allar innihalda þó endurmat hugsana.  Sumar innihalda einnig slökunartækni (applied relaxation), færniþjálfun í félagslegum samskiptum, berskjöldun og atferlistilraunir.

Hugræn atferlismeðferð fyrir fólk með félagskvíðaröskun með eða án lyfja hefur reynst mörgum vel.  Hún er annað hvort veitt sem hópmeðferð eða sem einstaklingsmeðferð og er yfirleitt í 12 vikur.  Æskilegt er að ekki séu færri en 6 í hópnum en 6-8 manns í hóp er algengt.  Tímarnir eru þá einu sinni í viku, yfirleitt 2 – 2,5 klukkustundir í senn en í einstaklingsmeðferð 50 mínútur vikulega.

Árangur af hugrænni atferlismeðferð við félagskvíðaröskun ýmist sem hóp- eða einstaklingsmeðferð hefur einna mest verið rannsakaður síðastliðin ár.  Meðferðin samanstendur meðal annars af fræðslu um röskunina, kerfisbundinni ónæmingu, berskjöldun og atferlistilraunum en þá er farið í aðstæður sem félagskvíðinn beinist að. Þessi gagnreyndu inngrip hafa verið í notkun síðastliðin 40 ár, ýmist hluti af þeim eða saman undir merki HAM eins og algengast er í dag.

Forðunar og öryggishegðun eru helstu þættir sem taldir eru viðhalda félagskvíðanum það er að segja einstaklingurinn hættir að taka þátt í því sem veldur honum félagskvíða (forðunarhegðun) eða hann tekur inn töflur, fær sér í glas til að slaka á, eða gerir eitthvað annað sem hann trúir að muni koma í veg fyrir einkenni félagskvíðans (öryggishegðun).

Meðferð byggist því á því að nálgast það sem félagskvíðinn beinist að í mörgum litlum skrefum, skref fyrir skref.  Til dæmis útbúa sumir kvíðastigveldi sem felst í því að raða upp kvíðavekjandi aðstæðum eða þáttum eftir styrk kvíðans.   Einstaklingurinn byrjar síðan á því að takast á við það sem vekur minnstan kvíða og síðan koll af kolli. Niðurstöður rannsókna hafa bent til að bæði einstaklingsmeðferð og hópmeðferð skili árangri en marktækur munur hefur verið á minnkun kvíðaeinkenna þeirra sem tóku þátt í meðferð miðað við þá sem voru á biðlista.  Árangur hefur enn verið til staðar 6 mánuðum síðar.

Endurmat hugsana er einn af meginþáttum hugrænnar atferlismeðferðar. Einstaklingurinn fær leiðsögn um hvernig hann getur þekkt hugsanir sem vekja kvíða í félagslegum aðstæðum en einnig hvernig hann getur áttað sig á almennum skoðunum sínum á félagslegum samskiptum sem gætu verið kveikja slíkra hugsana.  Hann lærir að gera hugsanaskrá og endurmeta hugsanir sínar.

Ýmsar aðrar aðferðir hafa verið notaðar til að takast á við félagskvíðaröskun eins og til dæmis markviss slökun (applied relaxation).  Hér er átt við ákveðna tegund slökunar sem gengur út á að kenna viðkomandi hvernig hægt er að slaka á í félagslegum aðstæðum.  Æfingarnar ganga út á hefðbunda vöðvaslökun þar sem farið er í gegnum nokkur þrep slökunar.  Í upphafi eru aðstæður ímyndaðar en í lokin er gerð æfing í félagslegum aðstæðum sem líklegar eru til að kalla fram kvíðaviðbrögð.

Félagsfærniþjálfun hefur einnig verið notuð sem hluti af meðferð og er hún byggð á hugmyndum um að fólk sem er kvíðið í félagslegum aðstæðum vanti færni í félagslegri hegðun.  Óyrt hegðun er æfð, eins og til dæmis að mynda oftar augnsamband og yrt hegðun, til dæmis með því að hefja samræður og æfa sig í að spyrja surninga sem geta opnað samræður.  Rannsóknaniðurstöður hafa samt ekki staðfest að fólk með félagskvíða viti ekki hvernig eigi að hegða sér í félagslegum aðstæðum heldur kemur félagskvíðinn í veg fyrir að fólk hegði sér í samræmi við það sem það veit.

Á síðustu árum hafa sumir meðferðaraðilar einnig notað árvekniþjálfun (mindfulness training) sem hluta meðferðar eða í formi 6 til 8 vikna námskeiða.  Þjálfunin byggist á daglegum árvekniæfingum og almennri fræðsla um streitu og félagskvíða.

Niðurstöður sumra rannsókna benda til að allt að 3 af 4 sem sækja meðferð við félagskvíðaröskun nái árangri. Það er því til mikils að vinna.  Að ná tökum á vandanum, jafnvel aðeins hluta vandans eykur líkur á frekari árangri þar sem æfingin skapar meistarann.  Fræðsla um röskunina er mikilvæg til að öðlast skilning á vandanum, hvað er að viðhalda honum og hvernig mögulegt er að grípa inn í.  Að vinna með skoðanir,  hugsanir og hegðun sína eru lykilatriði í breytingunum.

Ef þú ert aðstandandi þá er besti stuðningur sem þú getur veitt að hvetja eða styrkja þann sem er með félagskvíðaröskunin til að leita sér aðstoðar hjá fagaðila.  Margir sálfræðingar veita meðferð ýmist hóp- eða einstaklingsmeðferð við félagskvíðaröskun/félagsfælni.

Helstu heimildir:

Marks, I.M. Behavioral concepts and treatments of neuroses. Behavioral Psychotherapy. 1981;9:137-54.

Turk, C.L., Heimberg, M.G. og Magee, L (2008).  Social anxiety disorder.  í D. H. Barlow (ritstj.), Clinical handbook of psychological disorders: A step-by-step treatment manual (4. útg.) (bls. 123-163) NY: Guilford Press

Share
This entry was posted in Félagskvíðaröskun, Kvíði and tagged , , , , , , , , , , , , , . Bookmark the permalink.