Núvitund – mindfulness á degi hamingjunnar

Það fyllir sannarlega hjarta mitt hve margir vita um, þekkja til eða iðka núvitundaræfingar eða eins og Jon Kabat-Zinn höfundur MBSR sagði: að vitneskjan um núvitundariðkun breiddist út.

Oftar en áður sjást auglýsingar um núvitundarnámskeið, fleiri bækur hafa litið dagsins ljós og núvitund sem inngrip er víða að stinga sér niður.  Rannsóknum á áhrifum núvitundariðkunar hefur líka fjölgað mikið á síðustu þremur áratugum.  Niðurstöður sýna endurtekið að þátttaka í námskeiðunum getur leitt til minnkunar á einkennum streitu, kvíða, þunglyndis, vefjagigtar, ofnæmis/húðvanda, svefnvanda ofl.

Mikilvægt er þó að hafa í huga að flestar rannsóknirnar hafa verið gerðar á MBSR 8 vikna mindfulness based stress reduction námskeiði Jon Kabat-Zinn og MBCT: mindfulness based cognitive therapy for people with depression: 8 vikna námskeiði Williams, Teasdale og Segal.

MBCT: námskeiðið er byggt á MBSR námskeiði Jon Kabat-Zinn.   Þessi námskeið snúast ekki bara um núvitundarhugleiðslur heldur innihalda þau bæði fræðslu og æfingar til að takast á við streitu annars vegar (MBSR) og þunglyndi hins vegar (MBCT).  Niðurstöður rannsóknanna eru ekki að segja að núvitundarhugleiðslan ein og sér sé að skila þeim árangri sem raun ber vitni heldur koma minnkuð einkenni í ljós eftir 6 til 8 vikna þátttöku í áðurnefndum námskeiðum sem innihalda margt fleira en núvitundarhugleiðslur.

Núvitundarhugleiðslur hinna ólíku námskeiða eru þó líkar ef ekki eins, en samspil ólíkra þátta og uppbygging getur þó verið mjög frábrugðin 8 vikna MBSR námskeiði. Engu að síður eru niðurstöður rannsókna oft nefndar í kynningum og auglýsingum á núvitundarnámskeiðum sem þó eru afar ólík að uppbyggingu en MBSR eða MBCT og er þá jafnvel nefnt að núvitundarhugleiðslur séu lykillinn að hamingjunni og jafnvel að það sé vísindalega sannað.

Þegar talað er um rannsóknir á MBSR þá er verið að tala um 8 vikna námskeið sem er 2-2,5 klukkutímar á viku og þar að auki er heill iðkunardagur helgina á milli 6 og 7 viku.  Þetta er hin eiginlega uppbygging á MBSR.  Ef til vill skila styttri núvitundarnámskeið eins og 4 vikna námskeið einn klukkutími á viku sama árangri og MBSR en það hefur ekki verið rannsakað eftir því sem ég best veit.

Það gleður hjarta mitt að fleiri og fleiri hafa tækifæri til að kynnast núvitundarhugleiðslum og hlakka ég til þegar áhrif á þátttaka í styttri útgáfu núvitundarnámskeiða verður rannsökuð.  Þá getum við ef til vill sagt að núvitundarhugleiðsla minnki einkenni kvíða, streitu, þunglyndis ofl hvort sem námskeiðin eru í einn klukkutíma eða tvo á viku í 4, 6 eða 8 vikur en fyrr getum við ekki sagt það.

Við viljum byggja aðferðir, námskeið eða inngrip á sterkum vísindalegum grunni og gefa fólki gagnlegar upplýsingar.  Tilgangur rannsókna er meðal annars sá að komast að því hvort inngrip styður tilgátu.  Það mun sannarlega gleðja hjarta mitt þegar fólk vísar í rannsóknarniðurstöður út frá þekkingu sinni og setur hlutina í rétt samhengi.

Megi þú njóta hamingju

 

Share
This entry was posted in Árvekni/Mindfulness, Kvíði, Námskeið í árvekni/núvitund/mindfulness, Pistlar um árvekni, Streita. Bookmark the permalink.